Persónusköpun Íslendingasagna er talin ná hápunkti í lýsingu á þeirri margbrotnu persónu sem Egill Skallagrímsson hefur að geyma.
Hann er í senn málsnjall með afbrigðum enda höfuðskáld sögualdar, fádæma harðskeytt hetja í bardögum, óvæginn óvinum sínum og gráðugur þegar gersemar víkingaaldar eru annars vegar. En um leið er Egill heillandi persónuleiki. Kolsvört og óborganleg fyndni hans, viðkvæmt sálarlíf og órofa tryggð skapa persónu sem verður lesandanum einkar eftirminnileg. Þunglyndi Egils er hér lýst af mikilli nærfærni, hvort sem er þegar hann horfir fram á jól án öldrykkju eða á bak ástvinum.
Egils saga í útgáfu Óskars Halldórssonar kom fyrst út hjá Bókaútgáfunni Skálholti 1966. Sögunni fylgir greinargóður inngangur eftir Óskar og orðskýringar sem eru neðanmáls á hverri síðu. Bókin hefur um áratugi verið notuð við kennslu. En hún er einnig tilvalin hverjum þeim sem hefur áhuga á að sökkva sér ofan í hrikalegan heim víkingaaldar, þúsund ára íslenska fyndni og einstæðan frásagnarmáta.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun