Salóme týnir kettinum sínum rétt fyrir jólin og í örvæntingarfullri leit sinni venur hún komur sínar á Kringlukrána. Hún sest við barinn og skrifar bréf þar sem hún opinberar sig í fyrsta sinn. Bréfin eru stíluð á hina dularfullu Helgu sem vann með Salóme í versluninni Betra lífi tíu árum fyrr. Með lifandi frásagnargleði afhjúpar hún sjálfa sig og leitar skilnings á fjölskyldusögunni, ástinni og sálarstríði ungrar konu í grátbroslegum smábæjarharmleik þriggja ættliða á Akranesi. Við sögu koma spákona í Fossvogi, drykkfelldur organisti og auðvitað örlagavaldurinn Helga. Hér er á ferðinni martraðarkennd uppvaxtar- og ástarsaga úr rammíslenskum veruleika.
Júlía Margrét Einarsdóttir er með MA gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands og MFA gráðu í handritagerð frá New York Film Academy. Hún hefur áður sent frá sér nóvellu og ljóðabók og sló eftirminnilega í gegn með sinni fyrstu skáldsögu, Drottningunni á Júpíter (2018). Samhliða skrifum starfar Júlía við menningarblaðamennsku og dagskrárgerð.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun