Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Gunnar Hersveinn

Í bókinni Orðspor – gildin í samfélaginu fjallar Gunnar Hersveinn um hvernig einstaklingar geta lagt öðrum lið og tekið þátt í því að bæta samfélag sitt. Tekur hann þar upp þráðinn frá metsölubókinni Gæfuspor – gildin í lífinu sem fjallar um viðleitni eintaklinga til að bæta sjálfa sig með því að efla tilteknar dyggðir og rækta tilfinningar; hér er horft út á við – á hvernig við getum bætt samfélagið.

Líklega hefur ekki um langt skeið verið önnur eins þörf á bók sem þessari, þar sem hún spyr okkur hreint út á hvers konar gildum við viljum byggja samfélagið. Í ölduróti efnahagslífsins er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, og endurmeta gildismatið sem við höfum búið við.

Markmið bókarinnar er að sporna gegn kæruleysi og aðgerðarleysi með uppbyggilegri gagnrýni og athugun á samfélagsmálum. Tekið er á uppeldismálum, jafnréttismálum, umhverfismálum og trúmálum og rætt ítarlega um hlutverk fjölmiðla. Fjallað er á greinargóðan hátt um fjölmörg gildi og þýðingarmikla þætti, svo sem sjálfstæða hugsun, fyrirmyndir, fegurð, fátækt og velmegun, hið góða og lygina, nægjusemi og jákvætt hugarfar, völd og umönnun, frístundir kynjanna og karllægar fréttir.

Gunnar Hersveinn er þekktur samfélagsrýnir. Hann hefur fengið viðurkenningar fyrir greinaskrif um manngildi og verið tilnefndur til blaðamannaverðlauna fyrir athyglisverð skrif um mannlíf á sviði jafnréttis-, uppeldis- og menntamála.


****

Jón Ólafsson / Morgunblaðið

„Á heillandi hátt nálgast Gunnar Hersveinn í bókinni Orðspor það vandasama verk að svara spurningunni: Hvernig ber að umgangast landið og lífið í kringum mann, veröldina á hennar eigin forsendum?“
Guðmundur Páll Ólafsson