„Þú hefur, þótt merkilegt sé, nokkurn grun um það sem ég hef að segja.“
Franz Kafka var eitt af höfuðskáldum evrópskra bókmennta á 20. öld og er þekktastur fyrir skáldsögur sínar og smásögur. Dagbækur og bréf skipa þó stóran sess í höfundarverki hans og bera vitni um einstaka lífssýn, ekki síst bréfið sem þessi bók geymir.
Franz Kafka var þrjátíu og sex ára gamall þegar hann skrifaði föður sínum gríðarlangt bréf sem var ekki ætlað til birtingar og raunar aldrei afhent. En það varðveittist og er ekki aðeins magnað ákæruskjal á hendur föðurnum heldur einnig einstök játningabók og tilraun bréfritarans til þess að skilja æsku sína, fjölskyldu, uppeldi og mótun.
Bréf til föðurins er öðrum þræði könnun á eðli og atferli harðstjóra og auðvelt er að koma auga á tengsl þess við sérstæðan sagnaheim Kafka. Um leið er það einkalegt uppgjör og snertir djúpt hvern þann sem hefur íhugað hvað í því felst að vaxa úr grasi og komast til sjálfs síns.
Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson þýddu og rituðu eftirmála, en þeir feðgar hafa áður þýtt meirihluta höfundarverks Kafka, þar á meðal Umskiptin, Réttarhöldin og Ameríku.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun