Dr. Jón Gíslason (1909–1980) er landsmönnum vel kunnur fyrir skóla- og fræðistörf sín. Hann lauk doktorsprófi frá háskólanum í Münster í Þýskalandi árið 1934 en lokaritgerð hans fjallaði um Eneasarkviðu Virgils. Sjö árum síðar var hann ráðinn fyrsti fastakennari Verzlunarskólans og varð yfirkennari þar ári seinna. Í Verzlunarskólanum reyndist Jón mikill máttarstólpi og kenndi meðal annars latínu, frönsku, þýsku og ensku. Hann gegndi síðan stöðu skólastjóra 1952–1979. Eftir Jón liggja ýmis merk rit um klassíska menningu Grikkja og Rómverja svo og þýðingar á Evripídesi, Sófóklesi og Æskýlosi. Einnig stóð hann að
útgáfu Hómersþýðinga Sveinbjarnar Egilssonar ásamt Kristni Ármannssyni.
Af því tilefni að 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns árið 2009, gefur Bókmenntafélagið út greinasafnið Cicero og samtíð hans sem kom fyrst út hjá Menningarsjóði 1963. Þetta vinsæla safn hefur lengi verið illfáanlegt. Hér dregur Jón upp líflega og skemmtilega mynd af Cicero og samtíma hans. Greinasafnið skiptist í þrjá hluta: Cicero og samtíð hans, Úr bernsku konungsdóms og trúarbragða, og Virgill, skáld vors og viðreisnar. Jón hélt því fram að þar sem hið mikla bréfasafn Ciceros hafði varðveist þá væri hann sá fornaldarmaður sem við gætum kynnst best. Bréf Ciceros fann Petrarca, frumherji endurreisnarinnar, og segja þau ekki aðeins frá einkalífi Ciceros heldur gefa þau einnig greinargóða mynd af samtímasögu skáldsins. Önnur grein ritsins byggist á vísindariti Sir James George Frazer, The Golden Bough, sem kom út seint á 19. öld og aftur, með viðaukum, snemma á 20. öld. Ritið átti að rekja á sögulegan hátt þróun mannlegrar hugsunar frá trú á töfra og dulúð yfir í trúna á vísindin. Síðasta greinin fjallar um skáldið Virgil og þau straumhvörf sem urðu í menningu Rómverja um hans daga. Ritið er bæði listilega samsett og sagnfræðilega nákvæmt. Jón blæs skáldlegu lífi í Cicero sjálfan en lýsir einnig sögulegum veruleika Rómaveldis af mikilli sannfæringu. Að sama skapi er meistaralega lagt út af skáldskap Virgils. Texti frumútgáfunnar er endurprentaður nokkurn veginn stafréttur en ritháttur erlendra nafna hefur verið samræmdur og örfáar smávillur leiðréttar.
Nefna má að tvö rit Ciceros sjálfs hafa þegar komið út sem Lærdómsrit, Um vináttuna og Um ellina.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun