Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Egill var sonur landnámsmannsins Skalla-Gríms, höfðingi Borgfirðinga á tíundu öld, vopnagarpur og víkingur og mesta nafngreint skáld Íslands á fornum tímum. Honum er fylgt frá vöggu til grafar, og ævisaga hans er eitt ágætasta listaverk meðal íslenskra fornbókmennta. Sagan styðst við vísur og kvæði eftir Egil og vafalaust einnig við fornar munnmælasagnir, en höfundur sögunnar bætir einnig miklu við frá eigin brjósti. Fróðleikur og list, raunsæi og skáldskapur vega salt í réttu jafnvægi. Að þessu leyti svipar Egils sögu mjög til Heimskringlu, enda hefur þess fyrir löngu verið til getið að Snorri Sturluson sé höfundur beggja ritanna. Bent hefur verið á fjölmörg einkenni í stíl og orðavali sem sameiginleg eru báðum ritunum (og einnig Snorra-Eddu). Í báðum kemur fram sami hæfileiki til að bregða upp ljóslifandi myndum, og iðulega er teflt fram tveimur andstæðingum sem skiptast á skoðunum eða þreyta kappræður. Höfundi tekst með einstakri snilli að flytja mál þess sem talar hverju sinni svo að áheyrandi hlýtur að snúast á hans band. Í öðrum fornsögum er hvergi að finna neitt sem líkist fortöluræðum Heimskringlu og Eglu eða stenst samjöfnuð við þær.

Egils saga er heimildarrit að hætti síns tíma, en jafnframt bókmenntaverk sem lýtur lögmálum listarinnar. Tvívegis lendir Egill í miklum þrengingum, en bjargast í bæði skiptin fyrir kraft skáldskapar síns. Fjandmenn hans, Eiríkur konungur blóðöx og Gunnhildur drottning, hyggjast taka líf hans í Jórvík, en þá leysir hann höfuð sitt með því að yrkja á einni nóttu tvítuga lofdrápu um konunginn. Og þegar hann sjálfur ætlar að svipta sig lífi eftir missi Böðvars sonar síns, fær Þorgerður dóttir hans talið hann á að yrkja erfikviðu, en við það mýkjast harmar hans og hann yrkir sig í sátt við guðina sem hafa rænt hann sonum sínum. Sonatorrek hefur varðveist með sögunni og er eitt hið máttugasta snilldarverk íslenskra ljóðbókmennta.

Egill Skalla-Grímsson er stórbrotnasti maður sem lýst er í íslenskum fornsögum og þótt víðar væri leitað. Hann er að ásýnd líkur föður sínum og föðurföður, mikill vexti, ófríður sýnum og snemma sköllóttur, og frá þeim erfir hann tröllskap og hamremmi. En undir niðri á hann einnig glæsileik Þórólfanna, bróður síns og föðurbróður. Undir feldi sínum dreymir hann um konuna vænu sem glæsimennið Þórólfur hefur áður átt – og fær hennar með tilstyrk vinarins. Óðinn hefur gefið honum íþrótt skáldskapar til að leysa höfuð sitt og til að huggast í hörmum eftir bróður og syni. Egill Skalla-Grímsson er mögnuð samsteypa af dýrslegum ruddaskap, mannlegri viðkvæmni og guðdómlegri andagift.

Aðrar vörur frá þessari verslun

Aðrar vörur frá þessari verslun