Ísland í aldanna rás: 1800-1899 er stórvirki þar sem rakin er saga 19. aldar á Íslandi í máli og myndum. Bókin er fróðlegt, skemmtilegt og alþýðlegt upplýsingarit.
Á árunum 2000-2002 gaf JPV útgáfa út sögu 20. aldarinnar í sama bókaflokki og naut hún fádæma vinsælda. Hér er saga íslensku þjóðarinnar rakin ár frá ári í liprum og fræðandi texta og fjöldi sérfræðinga ritar yfirlitsgreinar um margvísleg efni. Um eitt þúsund myndir gera verkið einstaklega lifandi og bókin opnar lesendum horfinn heim þar sem lífsbaráttan var gríðarlega hörð en nútíminn samt innan seilingar. Aðalhöfundur bókarinnar er Bjarki Bjarnason sem hefur á undanförnum árum viðað að sér miklu efni í verkið. Bókin er í stóru broti og 532 blaðsíður að lengd. Aðalritstjóri Íslands í aldanna rás 1800-1899 er Sigríður Harðardóttir og myndaritstjóri Margrét Tryggvadóttir.
Í bókinni er greint frá stórviðburðum og merkistíðindum, náttúruhamförum, skipsköðum og sakamálum. Sjálfstæðisbaráttu og þjóðfrelsismálum Íslendinga og kvenréttinda- og verkalýðsbaráttu eru gerð góð skil, sagt er frá menningu, listum og þróun íslenskunnar, baráttunni við fátækt og hungur, sérkennilegum skoðunum og deilum. Í upphafi hvers árs er atburðaannáll auk veðurlýsingar ársins. Einnig er gerð grein fyrir helstu fréttum frá útlöndum.
Gríðarleg vinna var lögð í að gera bókina sem best úr garði og eftirtaldir sérfræðingar rituðu yfirlitsgreinar um þróun mála á sínu sviði á 19. öld: Ragnheiður Gyða Jónsdóttir, Jón Þ. Þór, Lýður Björnsson, Andrés Arnalds, Ari Trausti Guðmundsson, Árni Daníel Júlíusson, Bjarki Sveinbjörnsson, Fríður Ólafsdóttir, Guðjón Friðriksson, Guðmundur Andri Thorsson, Hrafnhildur Schram, Ingimar Jónsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Loftur Guttormsson, Már Jónsson, Páll V. Bjarnason, Silja Aðalsteinsdóttir, Sveinn Einarsson og Trausti Jónsson.
Í bókinni eru fleiri myndir frá 19. öld en áður hafa birst á einum stað. Öflun þeirra var mikið verk ogvar víða leitað fanga, meðal annars í einkasöfnum og opinberum söfnum. Ýtarlegar mynda-, nafna- og atriðisorðaskrár eru í bókinni og gera hana þar með mjög aðgengilega fyrir fróðleiksfúst fólk á öllum aldri.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun