Sveitin í sálinni fjallar um horfinn heim í Reykjavík – heim sem var lifandi veruleiki þúsunda Reykvíkinga langt fram eftir 20. öld. Margir bæjarbúar voru aðfluttir úr sveit og höfðu með sér á mölina viðhorf og venjur úr átthögunum. Ýmsum þeirra þótti sjálfsagt að halda áfram dálitlum búskap en flestir létu sér nægja að stunda matjurtarækt, þar sem kartöflur voru í öndvegi. Smám saman höfðu steinsteypa og malbik þó betur; skepnuhald og matjurtarækt í stórum stíl létu undan síga og liðu loks undir lok.
Rakið er í glöggum texta og rúmlega 550 forvitnilegum ljósmyndum hvernig ásýnd Reykjavíkur tók stakkaskiptum á 20. öld. Þetta er fróðleg og skemmtileg saga sem varpar ljósi á vöxt og þróun höfuðborgarinnar þar sem saman fléttuðust fornir hættir og ný viðhorf.
Eggert Þór Bernharðsson (f. 1958) er sagnfræðingur og prófessor í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Eftir hann er meðal annars Saga Reykjavíkur 1940–1990 í tveimur bindum og Undir bárujárnsboga, braggalíf í Reykjavík 1940–1970 en bæði verkin voru tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
„Stórkostleg bók!“
Egill Helgason / Kiljan
„Ég hafði alveg frábærlega gaman af því að lesa þessa bók … Mjög skemmtilegar hugleiðingar … Skilmerkilegur og góður texti auk korta og mynda sem maður getur legið yfir og skoðað fram og til baka … Eggert vann stórvirki.“
Sigurður G. Valgeirsson / Kiljan
„Myndirnar eru mjög sterkur þáttur … maður gengur nánast inn í þær.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Kiljan
„… skemmtilega fram sett, ekkert slegið af fræðilegum kröfum en um leið er hún mjög aðgengileg og margbrotin …?
Jórunn Sigurðardóttir / Síðdegisútvarpið
„Yndisleg bók … hægt að skoða aftur og aftur … Þarna er mitt fólk og þitt; ég spái því að hver einasti maður sem á sér einhverja sögu í þessum bæ hafi gaman af þessari myndarlegu og fallegu bók.“
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun