Íslenskur sjávarútvegur í alþjóðlegu samhengi eftir dr. Ágúst Einarsson prófessor er fyrsta bók sinnar tegundar á íslensku sem kemur út hérlendis.
Fjallað er um sjávarútveg í sögulegu ljósi og markaðslögmál eins og eftirspurn, framboð og eignarréttur skýrð. Lýst er veiðum hér á landi sem og erlendis og fjallað um eldi sjávarfangs og stjórnun fiskveiða. Fiskihagfræði er kynnt til sögunnar og greint er frá vinnslu og markaðssetningu afurða á heimsvísu.
Höfundur hefur yfirgripsmikla þekkingu á efninu og setur það fram á auðskiljanlegan hátt án þess að slaka á vísindalegum kröfum til efnistaka. Í bókarlok leggur höfundur fram tillögur til umbóta til að efla sjávarútveg hérlendis og greinir frá því hvernig taka eigi á helstu ágreiningsefnum tengdum sjávarútvegi. Víða er leitað fanga og er bókin ríkulega skreytt ljósmyndum og skýringarmyndum. Útgefendur bókarinnar eru Háskólinn á Bifröst og Háskólinn á Akureyri. Rektorar háskólanna, Eyjólfur Guðmundsson og Vilhjálmur Egilsson, fylgja bókinni úr hlaði með inngangsorðum.
Dr. Ágúst Einarsson er prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst og fyrrverandi rektor skólans. Hann hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum og var meðal annars alþingismaður og prófessor við Háskóla Íslands og hefur setið í fjölda stjórna og ráða og var meðal annars formaður Framtakssjóðs Íslands, Samninganefndar ríkisins og bankaráðs Seðlabanka Íslands auk þess sem hann hefur setið í stjórnum Borgarleikhússins og Landsvirkjunar.
Ágúst var um árabil prófessor við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og var þar skorarformaður og deildarforseti. Hann hefur jafnframt skrifað þrjá tugi bóka, þar á meðal Rekstrarhagfræði, Verkefni í rekstrarhagfræði, Hagræn áhrif tónlistar, Hagræn áhrif kvikmyndalistar, Menningarhagfræði og Hagræn áhrif ritlistar.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun