Í ritinu Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga fjallar Jón Karl Helgason með fjölbreytilegum hætti um eðli og hlutverk þjóðardýrlinga og kortleggur þær aðferðir sem notaðar eru til að rækta minningu þeirra á opinberum vettvangi. Höfuðáhersla er lögð á skáld og listamenn en stjórnmálamenn og trúarhetjur koma einnig við sögu.
Í bókinni er meðal annars rýnt í íkonamynd Jóhannesar S. Kjarvals á forsíðu tekjublaðs Frjálsrar verslunar og rifjað upp þegar meintar jarðneskar leifar Jóns biskups Arasonar voru grafnar upp á Hólum og teknar til varðveislu í Kristskirkju í Reykjavík. Þá ber arfleifð Jónasar Hallgrímssonar töluvert á góma; bent er á að valið á honum þjóðskáldi Íslendinga var engan veginn sjálfgefið á 19. öld og eins varpað ljósi á nýlegar deilur um valið á honum og lóu sem myndefni á tíu þúsund króna seðli. Einn kafli verksins er helgaður uppröðun á myndastyttum í Reykjavík og þeirri breytingu sem varð á henni á fjórða og fimmta áratug liðinnar aldar.
Þá er fjallað um tvö ólík verk sem byggja á ævi Halldórs Laxness, annars vegar fyrsta bindi ævisögu hans eftir Hannes Hólmstein Gissurarson og hins vegar leikritið Halldór í Hollywood eftir Ólaf Hauk Símonarson, en eðlilegt er að líta á þau bæði sem endurritun ýmissa eldri verka. Íslensku þjóðardýrlingarnir eru auk þess settir í samband við menningarlega þjóðardýrlinga annarra Evrópuþjóða, ekki síst slóvenska þjóðskáldið France Prešeren og danska ævintýraskáldið H.C. Andersen.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun