Lúxus á Frosti og Funa, Hveragerði
Nánari Lýsing
Viltu sitja í heitum potti við árbakkann og horfa á stjörnubjartan himininn með elskunni þinni? Þá er þetta eitthvað fyrir þig!
Lúxuspakki á hinum sívinsæla áfangastað, Frosti og Funa, í Hveragerði. Gisting, þriggja rétta kvöldverður og morgunverður. Aðgangur að heitum pottum og sundlaug. Aðeins um 25 mín. akstur frá Reykjavík.
Matseðill tilboðsins:
Forréttur: Val um stökkt saltfiskssalat með perudressingu eða blandaðan íslenskan platta
Aðalréttur: Val um Lambafille með blóðbergi, rótargrænmeti og rauðvínssoðsósu eða folaldalund með kryddsteiktum kartöflum, grænmeti og soðsósu eða bakaðan saltfisk með islenskum jurtum, grænmetisbyggotto og sultuðum lauk.
- Eftirréttur: val um Súkkulaðidraum með berjasósu og rjóma eða Frost og funa ís
Hægt er að fá útbúið gjafabréf sem gildir til 30.03.2014. Gjafabréf verða send rafrænt eftir að tilboði lýkur. Tilvalin jólagjöf fyrir þá sem eiga allt.
Frost og Funi
Frost og Funi í Hveragerði er í þægilegri fjarlægð frá ys og þys borgarlífsins og er opið allt árið. Við tökum bæði á móti einstaklingum og hópum og leggjum áherslu á að gestir okkar eigi notalega dvöl, hvort sem ætlunin er að eiga rómantíska helgardvöl, hittast til skrafs og ráðagerða, eða bara slaka á frá önnum hversdagsins. Öll aðstaða er útbúin með hvíld og vellíðan gesta í huga.
Boðið er upp á fundaraðstöðu með skjávarpa og sýningartjaldi.
Herbergi
Öll herbergi eru útbúin af natni með þægindi og vellíðan gesta í fyrirrúmi. Herbergin eru 17 talsins, öll tveggja manna, með sérbaði og sjónvarpi. Í níu herbergjum er auk þess hægt að búa um aukarúm. Þau eru vel búin fallegum og þægilegum húsgögnum auk þess sem í flestum herbergjum er internettenging.
Úr herbergjum er útsýni yfir Varmá, hveri á árbakkanum og útsýni til Reykjafjalls og dalanna (Reykjadals, Grændals og Gufudals) fyrir ofan Hveragerði. Hvert herbergi er því heimur útaf fyrir sig á árbakkanum í margbreytilegri íslenskri náttúru.
Heilsulind
Gestir okkar hafa aðgang að 12 metra sundlaug, heitum pottum á árbakkanum og gufubaði ásamt útisturtu. Við gistiheimilið eru heitir hverir sem notaðir eru til upphitunar húsa, lauga og gufubaðs allan ársins hring.
Meðferðir: Boðið er upp á nudd alla daga, regndropameðferðir, svæðanudd auk þess sem gestir okkar hafa aðgang að slökunarherbergi við hlið gufubaðs.
Það er einstök tilfinning að sitja í heitum potti við árbakkann á stjörnubjörtu köldu vetrarkvöldi eða svamla í sundlauginni eftir frískandi göngutúr og skjótast nokkrum sinnum í gufubað. Svo taka við gestum þægileg uppábúin rúm með þeim ævintýrum sem þar gerast.
Gestir sofna við niðinn frá ánni og baða sig í heitum laugum áður en haldið er áfram för. Auk dægilegrar hvíldar mýkir gufan húð gesta og ýtir til hliðar allri þreytu um leið og hún örvar blóðrásina.
Við Varmá og í Reykjadal ofan við Hveragerði eru svo heitir lækir þar sem göngufólk getur hvílt lúin bein og baðað sig.
Morgunverður
Frá upphafi höfum við lagt metnað okkar í að framreiða lystugan og fallegan morgunverð. Verslunin Yggdrasill leggur til heilsuvörur sínar: kaffi, te, morgunkorn, sultur, marmelaði og hunang er allt úr lífrænt ræktuðum afurðum, og rennur ljúflega niður með volgu brauði sem bakað er úr lífrænt ræktuðu korni hjá bakaranum í Grímsbæ. Sérvalinn reyktur silungur frá reykhúsinu á Geiteyjarströnd í Mývatnssveit gleður bragðlaukana, heimareykt bændaafurð og algjört sælgæti. Íslenskar hænur, sem vappa frjálsar og lukkulegar um umhverfi sitt, leggja til eggin og grænmetið kemur úr vistvænum gróðurhúsum.
Gestir okkar njóta hinnar bragðgóðu hollustu af morgunverðarstelli sem er sérhannað fyrir Frost og Funa af Margréti Jónsdóttur, leirlistakonu frá Akureyri, en hún er ein af fremstu myndlistarmönnum hér á sínu sviði. Borðbúnaður Margrétar ljær andrúmi morgunverðarins listrænan blæ og hefur vakið notalega hrifningu hjá gestum okkar.
Skoðið heimasíðu Frost og Funa hér.
Smáa Letrið
Gildistími: 25.10.2013 - 31.03.2014
Notist hjá
Vinsælt í dag